Ýttu á ljósa stikuna hún mun vísa þér á óvæntan stað

 
Heilagur andi og eiginleikar hans.

Heilögum anda er ætlað að þjóna mikilvægu hlutverki innan kirkjunnar. En ólíkt föður og syni þá hefur hann enga ytri mynd, nema dúfulíki, og sem sjö horn og sjö augu, og sem brennandi blys frammi fyrir hásæti Guðs. En þegar það er skoðað, þá eru þetta táknmyndir uppá eiginleika hans. Horn og augu tákna, að hann kemur í krafti, til að sýna hver Guð er, og sem dúfa táknar hann blíðan blæ til blessunar og sem blys táknar hann brennandi eld til hreinsunar. Hann sést ekki eins og englar og kerúbar. Honum er lýst í höfuð atriðum, sem anda, er fer í menn og fyllir þá. Honum er einnig lýst sem smurningu Og er það samkvæmt gamla sáttmálanum. Því þá voru menn smurðir með olíu, til þess að vilji og kraftur Guðs kæmi yfir þá. Við það hlutu menn guðlegan mátt og visku. Og þá svo mikla, að þeir komust í guðmóð, er kom þeim í yfirnáttúrulegt ástand, eins og Sál komst í, er hann var smurður til konungs, þegar andi Guðs kom yfir hann.
Guðmóður fyllir menn vissu þess, að vilji Guðs sé í og yfir þeim. Líkt og Jesús er fullviss um í Lúkasarguðspjalli: “Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig.” Lúk 4,18.
Þessi orð Jesú segja, að hann sé hinn smurði Messías. Og að hann hafi verið smurður með olíuhorni Guðs.
Heilögum anda er einnig lýst sem vatni eða vökva, sem hægt er að hella í ílát, svo sem bikar og menn drekki af:
“Nú er hann upphafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér heyrið og sjáið.” Post. 2.33.
Jesús hefur því samkvæmt þessu bikar úthellingarinnar, og getur úthellt heilögum anda, af vild sinni. Eins og hann gerði á hvítasunnudag. Hann fyllti þá lærisveinana af svo mikilli gleði, að menn sögðu:
“Þeir eru drukknir af sætu víni.” Þetta er í líkingu við það, sem Jesús var búinn að segja um heilagan anda: “Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki…Þar átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn, þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.” Jóh. 7,37 og 39.
Þessi orð Jesú, eins og við lásum, uppfylltust á hvítasunnudegi. Þegar lærisveinarnir teyguðu þennan Guðs veig og gaf þeim kraft og visku.
Jesús lýsir honum fyrir lærisveinunum, einnig sem krafti: “Uns þér íklæðist krafti frá hæðum.” Lúk.24,48.
Nokkur ágreiningur hefur ætíð verið á milli kristinna manna, um hver heilagur andi er, og hvert verk hans sé.
Við skulum nú skoða hvað Ritningin segir okkur um það, og byrja á spádómsorðum Jóels spámanns, um úthellingu andans:
“En síðan meir mun ég úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur munu spá, gamalmenni yðar drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir. Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum.” Jóel.3,1.
Í þennan spádóm vitnar Pétur postuli í prédikun sinni, þegar heilögum anda var úthellt á hvítasunnumorgni.
Honum verður úthellt sagði Jóel. Og hann mun koma með krafti og eldi sagði Jesús, og þetta rættist svo sannarlega:
“Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjandi sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.” Post. 2,2-4.
Hér var sjáanlega ótrúlegur kraftur á ferðinni og lýst er sem upphaf óveðurs, er skyndilega skellur á og fyllir húsið. Og í kjölfarið eldtungur, svo þeir stóðu eins og í ljósum logum. Þetta hefur verið stórkostlegt sjónarspil og ætla ég ekki að reyna, að lýsa því með orðum.
Þeir sem komu að húsinu eftir þetta, urðu undrandi, því þeir sáu einkennilega menn koma frá húsinu glaða og sítalandi á allskonar tungum, og voru í hegðun eins og þeir væru létt drukknir.Eða glaðir mjög.
Hvað er að gerast? Spurðu menn. Og Pétur verður fyrstur til svars og segir þeim, að hér sé bara að rætast það, sem Guð hafi lofað fyrir löngu og látið Jóel spá um. Og það sem Jesús sagði þeim, að þeir ættu að bíða eftir hér í Jerúsalem. Þetta væri kraftur og andi Guðs að verki í mönnum. Svo einfalt væri það nú. Síðan fer Pétur að boða þeim fagnaðarerindið um Jesú Krist og byggir það allt á orðum Ritningarinnar. Um pínu,dauða,upprisu og himna för Jesú. Og svo segir hann: “Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum við allir vottar þess. Nú er hann upphafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið.” P ost.2,32-33.
Hér segir að andanum sé úthellt, og að það sé Jesús, sem sér um að úthella heilögum anda, og að Guð hafi gefið honum að ráða yfir, eins og öllu í dag.
Hér er það líka sjáanlegt á hvítasunnu undrinu, að úthelling andans, er og verður innri reynsla mannsins fyrst og fremst. Innri breyting. Innri kraftur. Það er sennilega þess vegna, sem Biblían lýsir andanum sem vökva er maður drekkur og verður um leið fyrir áhrifum. Drukknir af sætu víni, sögðu þeir þegar þeir sáu lærisveinana. Og er lýsing á því, að innri maður lærisveinana hafi orðið fyrir sterkum áhrifum. Og vegna þess að hann hefur innri áhrif, er honum líkt við vín. Það er því nauðsynlegt að sjá þetta í þessu ljósi, svo hægt sé að skilja hvernig heilagur andi vinnur.
Eitt af einkennum andans er, að menn tala út vegna þess, að andinn hefur talað hið innra orð frá Guði. Samanber Postulasagan:. “Rétt er það, sem heilagur andi mælti við feður yðar fyrir munn Jesaja spámanns.” Post 28,25.
Það var því andi Guðs, sem knúði Jesaja til að tala. Skoðum líka hvað Pétur sagði:
“Því aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.” 2.Pét 1,21.
Báðar þessar tilvitnanir sýna ljóslega, að það eru innri áhrif, sem knýja menn til þess að tala, þegar Guð hefur fyrir anda sinn, talað hið innra með manninum. Þá er það sama hvort það er áminning, eða uppörvun til manna, því sá sem knúinn er af andanum getur einfaldlega ekki þagað.
Eitt að því síðast sem Davíð konungur sagði var: “Andi Drottins talaði í mér og hans orð eru á minni tungu.” 2.Sam 23,2.
Við tökum eftir því, að vegna þess að andi Guðs var í Davíð, þá var orð Guðs á tungu hans. Í Esekíel eru líka orð um eitt af höfuð verkum andans, en það er að hjálpa mönnum, að halda og skilja orð Guðs.
“Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst, og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setningar mínar og breytið eftir þeim.” Esek. 36,27.
Að leggja andann í brjóst einhvers er það sama, og að láta hann verka hið innra. Andinn kemur því með vilja Guðs inn í vitund mannsins. Og hér segir Drottinn, að hann muni láta heilagan anda kenna öllum, sem hann hafa, að hlýða boðum hans og breyta eftir þeim. Það sem ritað var á steintöflurnar og síðar á pappír og erfitt var að hlýða, skyldi með andanum fara inn í vitund mannsins, þannig að honum yrði það eðlilegt, að hlýða boðorðum Guðs. Páll postuli orðar þetta vel
“Sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjónar nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.” 2.Kor,3,6.
Það er því fyrir áhrif heilags anda, sem allt breytist. Öll tilveran. Allur skilningur og allt mat. Því það sem við oft lesum og nær ekki skilningi okkar. Lífgar heilagur andi, ef við biðjum Drottin, að við öðlumst skilning á orði og vilja hans og getum sagt með sanni um orð hans Amen! Sem þýðir: Vissulega er það rétt áreiðanlegt, öruggt.
Í Orðskviðunum Segir Salómon konungur, fullur af visku fyrir anda Guðs: “Snúist til umvöndunar minnar, sjáið, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.” Orðsk1,23.
Hér er enn ein staðfesting þess, að andi Guðs kunngjörir orð hans, og að það er aðal einkenni hans. Páll segir líka um þetta með andann, að skýla hafi hvílt yfir lestri Gamlatestamentisins. Það er, að menn hafi í raun aldrei skilið það fullkomlega. Enda er svo enn í dag, þegar menn reyna að lesa Biblíuna ófrelsaðir og án leiðsagnar heilags anda og bænar. Skoðum hvað Páll segir um þessa hluti:.
“En hugur þeirra var forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því aðeins í Kristi hverfur hún. Já, allt til þessa dags hvílir skýlan yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn. En þegar einhver snýr sér til Drottins, (Jesú) verður skýlan burt tekin. DROTTINN ER ANDINN, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.” 2.Kor.3,14-17
Það er því andi Drottins Jesú, sem kemur í hinum heilaga anda, sem sendur er til að gera hans vilja og sýna hans hjarta, og til að framkalla í mönnum vilja Guðs. Þetta er markmið sem þrungið er meiningu, og á ekki að vera misskilið hjá þeim, sem lesa Ritninguna. Páll útskýrir þetta líka vel í Rómverjabréfinu: “En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans.” Róm 8,9.
Þetta getur varla verið skýrara. Drottinn Jesús er andinn, og sá sem hefur ekki heilagn anda hans, er þá ekki hans.
Jesús sagði að Guðs ríkið væri bara hið innra með manninum “því guðs ríki er innra með yður” (Lúk 17,21) og sá sem upplifði það ekki þar, gæti ekki fundið það hér á jörðu, því það væri andlegt. Páll tekur undir þetta er hann sagði:
“Því að ekki er guðsríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.” Róm 14,17.
Hvað segir þetta okkur annað en það, að Guðs ríkið opinberast mönnunum, þegar þeir eru fylltir heilögum anda. Þá en ekki fyrr, verður guðdómurinn augljós. Menn skilja þá og skynja um hvað hlutirnir snúast. Þeir eignast þá kraft, frið og fögnuð, til að kunngjöra fagnaðarerindið um náð Guðs fyrir Jesú Krist. Þegar heilagur andi fyllir vitund mannsins, getur hann sagt með hjartans sannfæringu: “Jesús er Drottinn!” Samanber 1.Kor 12,3:
“Og enginn getur sagt: “Jesús er Drottinn!” nema af heilögum anda.” Og orð Péturs postula: “Sem yður er nú kunnugt af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið í heilögum anda, sem er sendur frá himnum.” 1.Pét.1,12.
Þetta er líka í samhljóman við orð Jesú um verk og vilja andans. Við skulum nú því skoða hvað Jesús segir okkur:
“Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.” Jóh. 15,26.
Allt er þetta á sama veg. Já, vitna um Jesú, að hann er Drottinn. Og sá sem allt vald hefur. Að hann er Messías hinn smurði, sem kom til að frelsa menn frá synd og dauða. Og að hann sé orð Guðs. Því að “í upphafi var Orðið, og orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.” Þetta mun allt lifna við og verða hjartans sannleikur í vitund þess manns, er hefur frelsast og meðtekið heilagan anda. Menn geta því aðeins boðað fagnaðarerindið í heilögum anda. Skoðum áfram hvað Jesús segir um andann:
“En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur,- syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur, og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.” Jóh.16,7-11.
Fyrsta skilyrði þess að andinn kæmi var, að Jesús yrði að fara. Hversvegna? Drottinn Jesús er andinn eins og Páll sagði. Og að honum yrði ekki úthellt fyrr en Jesús færi aftur til himna.Samanber orð Péturs: “Nú er hann upphafinn…og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda…og úthellt honum.” (Post 2,33) En ef hann væri um kyrrt, myndi hann bara getað opinberast þeim, þar sem hann væri í sínum jarðneska líkama. Hann gæti jú, gengið um og gert gott og opinberað Guðs ríkið og grætt alla þá, sem hann hitti og væru undirokaðir af djöflinum, og í helsi syndarinnar. En þetta væri svo takmarkað og staðbundið, að árangurinn yrði lítill miðað við að þessi heimur er stór. Og hvað þá ef hann dæi ekki fyrir syndir mannanna, þá færi stundarlækningin fyrir lítið. En ef hann færi til himins og yrði guðdómlegur að nýju og tæki að stjórna þar aftur. Þá gæti hann farið að senda öllum, allstaðar, á öllum tímum. Já. öllum í einu sinn anda. Þetta er líka í samræmi við Opinberunarbókina, sem segir frá lambi Guðs er kom til himins til að taka við stjórn og tilbeiðslu og að “það hafi sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.” (Opinb 5,6.) Þetta þýðir einfaldlega eins og Páll sagði, að Jesús er andinn. Eða að það er andi hans og áhrif sem koma.
Þegar svo andinn kæmi, þá fengju menn sömu trú og Jesús. Innu sömu verk og hann. Fengju sömu smurningu og hann til að kunngjöra Guðs ríkið. Þess vegna væri það þeim til góðs, að hann færi, því allir sem vildu myndu njóta góðs af því. Og í Jóhannesarbréfi segir Jesús:
“En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.” Jóh 16,13-14
Heilagur andi mun því leiða menn í allan sannleikann. Hann mun ekki sjálfur vænta neins heiðurs, né þrá tilbeiðslu, sem heilagur andi. Hversvegna? Því hann kemur sem andi Jesú og til að gera hann guðdómlegan. Og að kenna öllum að tilbiðja Jesú sem Drottinn, eins og Jesús sagði: “Hann mun gjöra mig dýrlegan.”
Í dag er sá mikli misskilningur orðinn útbreiddur á meðal kristinna manna, að heilagan anda eigi að tilbiðja og ákalla. Og menn syngja: “Kom helgur andi ég þarf þín.”
Sumstaðar er svo mikið um þetta, að menn ákalli og tali um heilagan anda, að Jesús hreinlega verður útundan. Þetta er í andstöðu við það, að andinn geri Jesú dýrlegan og gerir mann spurulan um það, hvort heilagur andi Guðs geti þá verið að verki, fyrst Jesús er ekki dýrlegur.
Þetta hefur færst í aukana síðustu 12-15.árin. En ég tel þetta vera alrangt. Því eins og komið hefur fram á heilagur andi ekki að fá né væntir neinnar tilbeiðslu. Hann á aðeins að fá menn til að lofa og tilbiðja Jesú og fá þá til að sjá endurlausnarverk hans. Fagnaðarerindið. Blóð hans og kross og umfaðma hann. Hann á að tala hið innra, en ekki um sjálfan sig, heldur um Jesú og það sem Guð vill að komi frá honum. Hann á að fylla menn af löngun til þess, að þekkja Guð og hans orð. Eins og Esekíl segir. Öll orka hans og kraftur á að fara í það að opinbera fagnaðarerindið, því það er markmið Guðs með heilagan anda.
Um níutíu sinnum er talað um heilagan anda í Nýja testamentinu, en aldrei er talað um að hann eigi að fá tilbeiðslu eða ákall. Jesús einn er þungamiðjan. Allt á að lúta honum. Höfundur Hebreabréfsins kvetur menn til þess,að horfa bara til Jesú: “Beinum sjónum vorum til Jesú,höfundar og fullkomnara trúarinnar.” Heb. 12,2.

Og Páll postuli segir því til staðfestingar; “að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.” Fil 2,10-11.
Þetta á því að vera markmið hins frelsaða manns, að sjá Jesú og tilbiðja hann einan, og þannig að bera þess merki, að heilagur andi Guðs sé í honum. Skoðum einnig fleiri orð Páls:
“Söfnuði Guðs í Korintu…ásamt öllum þeim, sem allstaðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists, sem er þeirra Drottinn og vor…” “Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélag sonar síns Jesú Krists, Drottins vors.” 1.Kor 1,2 og 9.vers:
Þetta segir mér að við heiðrum Guð með því að játa Jesú sem Drottinn. og ákalla hans nafn. Undir þetta tekur Jóhannes postuli:
“Vér vitum að Guðs sonur er kominn og hefur gefði oss skilning, til þess að við þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.” 1.Jóh. 5,20.
Sem sagt, ákall, tilbeiðsla og samfélag við Jesú. Þá erum við í hinum sanna Guði. Á réttum vegi og því á leið til himna. Og þegar við skoðum Nýja testamentið. Þá sjáum við að svo er, og að heilagur andi er bara verkfæri til opinberunar á Guði og vilja hans. Hvorki Jesús né lærisveinarnir nefna það einu orði, að við eigum að tilbiðja eða ákalla heilagan anda. Jesús sagði: “Ritað er: “Drottinn Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.”
Lærisveinarnir benda alltaf á Jesú. Sem dæmi byrja flest öll bréf Páls á því,að hann óski mönnum náðar og friðar frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. En nefnir aldrei neina kveðju frá heilögum anda. Nema að hann segir í lok 2.Korintubréfs 13,13.
“Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður”
Við vitum að samfélag við heilagan anda er hið innra, þegar við eru fyllt af honum, og þá er líka Jesús dýrlegur í okkur. Enda er það ekki ákall til andans, sem hreyfir við Guði, heldur bæn til Drottins. Sjáum því forskrift postulanna:
“Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt. Rétt út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns Jesú. Þegar þeir höfðu beðist fyrir hrærðist staðurinn þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.” Post 4,29-31.
Þarna sjáum við í fyrsta lagi ákall til Drottins. Og í öðru lagi bæn um, að mega tala orð Guðs með djörfung. Og í kjölfarið á ákallinu og bæninni, kom fylling heilags anda, sem hjálpartæki, svo þeir gátu talað orðið með djörfung, svo lækning, tákn og undur urðu fyrir Jesú nafn. Og áður í bæninni höfðu þeir sagt: “Þú sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs þjóns þíns.” En ein staðfesting þess, að heilagur andi talar í mönnum, þegar Drottinn hefur fyllt þá sínum anda.
Í tíunda kafla Postulasögunnar er sagt frá Pétri postula, þegar hann er að prédika fagnaðarerindið. Og í 38.versi segir Pétur:
“Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gerði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum.”
Og í 44, versi stendur:
“Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu.”
Þarna sjáum við þá merkilegu hluti, að heilagur andi opinberar ekki bara Jesú og upphefur hann, heldur opinberast hann, þegar fagnaðarerindið um Jesú er talað, samkvæmt orði Guðs.
Eitt er líka umhugsunar efni varðandi verk heilags anda. En það er, þegar fólk er að falla í gólfið, undan krafti hans. Þetta hefur líka aukist mikið á undanförnum árum í kjölfar náðargjafavakningar, sem aðallega hafa komið frá Bandaríkjunum. Í sumum söfnuðum er það svo, að fólk fer, eða er kallað upp til fyrirbæna, en fellur svo í gólfið í unnvörpum, jafnvel án þess að það sé beðið fyrir því.
Sumir fara samkomu eftir samkomu, til þess eins, að ég held, að falla í gólfið. En samt virðist þetta fólk ekki breytast né helgast meira en þeir sem aldrei hafa fallið í gólfið. Sumir prédikarar eru ásakaðir um það, að hreinlega hrinda fólki í gólfið. Einn sagði við mig um einn slíkan: “Hann reyndi að hrinda mér niður.” Ég ætla ekki að ásaka þá, þó mér hafi sjálfum sýnst þetta gerast. En ég hef lent í því sjálfur, að þurfa að halda fólki til þess, að geta beðið fyrir því. Því það vildi bara detta í gólfið.
Við sjáum líka sem dæmi samkomur Benny Hinn. Þar sem hann er með eins og sýningu á því, að láta sama fólkið falla í gólfið aftur og aftur og virðist hreinlega hafa gaman að. Enda hef ég heyrt hann segja: “I love it.” Eða, ég nýt þess. Að ég tali nú ekki um þegar hann var að kasta jakkanum út til áheyrenda,til þess að láta tugi eða hundruð falla undan krafti hans. Fyrir þetta var hann áminntur og hann hætti því, og er kannski íhugandi, að hann hafi gert það, fyrst smurningin til þess var frá Guði. Eða það skyldi maður ætla, fyrst krafturinn sem hann vinnur með, er kraftur heilags anda Guðs.
Ég mann líka þegar hann var hér í Kaplakrika, með samkomur, og þá var hann eins og með sýningu á því í lokin, að láta samkomuþjóna falla í gólfið. Á meðan biðu tugir manna eftir fyrirbæn, sjúkir og í hjólastólum. En þegar hann var búinn með samkonuþjónana. Þá fór hann og sagði: “Bye bye,God loves you.”
Margir stóðu vonsviknir eftir, og ég talaði við eina fatlaða stúlku, eftir samkomuna, sem sat grátandi á stól. Hún hafði ásamt mörgum beðið eftir því að fá fyrirbæn, en svo fór hann, og hún leit þannig á það, fyrst svo var, að Guð vildi bara ekkert með sig hafa.
Ég er ekki að deila á Benny Hinn, heldur að benda á hættuna á því, að menn geti farið yfir strikið, og nánast gert sjálfan sig að Guði, ómeðvitað, þegar vinsældin er orðið slík og þjónustan, eins og Benny Hinn hefur.
Ég á erfitt með að skilja samhengið á þessum gólfferðum. Því þegar ég skoða þær í ljósi orðsins. Þá verð ég bara undrandi. Því um svona atburði er bara ekki talað í Biblíunni. Aftur á móti er talað um það, að menn hefðu legið og þeim sagt að standa upp. Dæmi: “Í nafni Jesú Krists frá Nasaret,statt upp og gakk.” Post.3,6.
Sumir vilja réttlæta þessar gólfferðir, með því að Páll postuli hafi fallið undan andanum á leið sinni til Damaskus. En þegar það er skoðað, þá er það ekki svo. Sjáum Postulasöguna:
“En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós frá himni. Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: “Sál, Sál, hví ofsækir þú mig” Post.9,3-4.
Við sjáum hér tvennt, sem er eftirtektarvert. Hann fellur undan ljósi Jesú, en ekki anda og Jesús talar við hann þar sem hann liggur, og afleiðingarnar verða þær, að Sál, sem síðar verður Páll, gjörbreytist og verður í kjölfarið kröftugasti maður sem Drottinn hefur notað.
Annað dæmi sem menn nota þessum gólfferðum til stuðnings er, þegar Jesús var tekinn höndum í grasgarðinum, eftir að Júdas sveik hann í hendur manna: “Þegar Jesús sagði við þá: “Ég er hann,” hopuðu þeir og féllu til jarðar.” Jóh.18,6.

Það var ekki fyrir andann, heldur myndugleika Guðs sonarins, sem þeir hopuðu svo, að þeir hreinlega duttu hver um annan.
Það er að vísu talað um það í Markúsarguðspjalli,að drengur einn hafi fallið til jarðar eða í gólfið, en þá af völdum annars anda en anda Guðs.
“Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.” Mark .9,20.
Hér er það því fyrir áhrif ills anda sem þessi drengur fellur til jarðar. Þetta sem ég er að tala um og jafnvel hneykslar marga, er kannski dæmi um það, þegar menn fara að leggja áherslur á og gera það, sem ekki er talað um í orði Guðs. En láta svo ógert það, sem Guð segir að eigi að gera.
Það er líka verk andans, að standa vörð um þá sem hafa frelsast. Að benda þeim stöðugt á Jesú og á orð Guðs. Svo að þeir geti lifað í samræmi við Guð þannig, að þeir helgist. Og því nálgist Guð meira og meira. Eins og stendur í 2.Þessaloníkubréfi: “Guð hefur frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann.” (Á orð Guðs.) 2 Þess 2,13.
Þess vegna á það að vera gleggsta merki þess, að menn séu fylltir heilögum anda, að þeir séu að helgast samkvæmt orðinu og breytast til hins betra. Samanber 2.Kor. 5,17: “Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.”
Þetta á að gerast hjá þeim, sem hafa anda Krists. Því andinn á að kenna mönnum, að afneyta óguðleika, holdi og heimi, og kenna þeim að lifa í samræmi við vilja Guðs .(Títus. 2,11-12.) Já, heilagur andi á að standa vörð um hagsmuni Guðs, og vekja upp í mönnum hlýðni. Því mun ætíð vitnisburður þeirra, sem eru fylltir heilögum anda Guðs, vera í samræmi við orð Guðs. Þannig verður því hver og einn, sem telur sig tala af heilögum anda og/eða gefur vitnisburð um það, að Guð sé að gera eitthvað í lífi hans, að vera viss um að það sé í samræmi við Guðs orð. Því annars er hvorki andinn, né vitnisburðurinn frá Guði, ef hann stenst ekki Ritninguna. Jóhannes postuli talaði um þetta og sagði:
“Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði.” 1.Jóh. 4,1.
Það er því ekki bara heilagur andi sem er til staðar, heldur og líka aðrir andar. Andar andkristsins. Það eru andar, sem koma í líki anda Krists og reyna að fara eins nærri sannleikanum og þeir geta, til þess eins að villa um. Þeir koma svo með háskalegar villukenningar, þegar þeir hafa náð inn. Þess vegna er svo nauðsynlegt, að hafa greiningu orðs Guðs, til að vita með vissu, hvort andarnir séu frá Guði.
Við munum eftir því, sem Páll postuli sagði við Korintumenn: Að ef einhver kæmi til þeirra og prédika um annan Jesú, en hann hafði prédikað um. Töluðu um annað fagnaðarerindi og opinberuðu annan anda, en hann hefði sagt þeim frá. Þá hefðu þeir bara látið sér það gott líka. (2.Kor 11,4.)
Jóhannes sagði líka að þeir sem hafa hinn eiginlega heilaga anda Jesú hafi sigrað falsspámennina og þá anda, sem í þeim tala. Þess vegna heyra þeir Guði til, því heilagur andi sem í þeim er, sé meiri en þeir andar, sem tali í heiminum. Og hann lýkur orðum sínum þannig:
“Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum við í sundur anda sannleikans (orðsins) og anda villunnar.” 1.Jóh. 4,6.
Jesús sagði að andi sannleikans kæmi og myndi leiða menn í allan sannleikann.Hann bað þess líka að menn yrðu helgaðir í sannleika orðsins. Þetta verður því að haldast í hendur, heilagur andi og sannleikur Guðs orðs. Því er svo nauðsynlegt að lesa, þekkja og íhuga Ritninguna, og gera það í bæn og beiðni um opinberun í Jesú nafni, svo greining sé til staðar á allri villu. Því sé það ekki, þá getum við verið að taka við öðrum anda, og haldið hann vera heilagan anda.
Með heilögum anda koma gáfur andans, sem oftast eru kallaðar manna á milli gjafir andans. Í þeim felast guðlegir eiginleikar og kraftur. Jesús sagði, þegar hann talaði við lærisveinana um tákn gjafanna, að þær ættu að fylgja þeim sem trúa á hann:
“En þessi tákn munu fylgja þeim sem trúa. Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.” Mark.16,17-18.
Já, Jesús segir að þetta sé táknin að menn trúi á hann. Nokkurs konar prófsteinn. Tákn um það, að fagnaðarerindinu sé trúað í anda og sannleika. Að menn hafi meðtekið hann, sem sinn frelsara og Drottinn, og það sem hann gerði hér á jörðu. Þessu trúðu líka lærisveinarnir eftir upprisuna og um það eru til mörg dæmi í Biblíunni. Og í niðurlaga Markúsarguðspjalls segir um þá:
“Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu.” Mark16,20.
Um þetta lesum við líka í Postulasögunni. Um undur og tákn, sem lærisveinarnir framkvæmdu í nafni Jesú Krists frá Nasaret.
Já, fyrir hendur postulanna, gjörðust mörg tákn og undur. Og svo voru þeir smurðir að menn læknuðust, með því að koma með flíkur af Páli og leggja yfir sjúka og þeir urðu heilir. Þannig lögðu þeir sjúka á götuna í þeirri von, að Pétur gengi þar framhjá og ef það yrði, að skuggi hans félli yfir þá, og þeir læknuðust,og það gekk eftir. Allstaðar frá komu menn með sjúka og þá sem voru þjáir af illum öndum, og allir fengu lækningu. Um það segir í Postulasögunni:
“Fyrir hendur postulanna gjörðust mörg tákn meðal lýðsins…Menn báru jafnvel sjúka út á strætin og lögðu þá á rekkjur og börur, ef verða mætti, er Pétur gegni hjá, að alltént skuggi af honum félli á einhvern þeirra. Einnig kom fjöldi fólk frá borgunum umhverfið Jerúsalem og fluttu með sér sjúka menn og þjáða af óhreinum öndum. Þeir læknuðust allir.” Post.5,12 og 15-16.
En til eru þeir, sem vilja halda því fram, að þessi verk séu ekki ætluð trúuðum í dag. Þetta hafi bara verið ætlað postulum frumkirkjunnar, til þess eins að stofnsetja kirkjuna. En það er alrangt. Því samkvæmt orðinu, er þetta ætlað öllum þeim sem trúa á Jesú, og fyllast heilögum anda. Eins og Jesús sagði sjálfur: “Þessi verk munu fylgja þeim sem trúa.” Eins og líka fyrirheitið hjá spámanninum Jóel um úthellingu andans segir, að andanum muni verða úthellt yfir allt hold. Það er að segja yfir alla þá, sem vilja þessa gjöf Guðs. Já, núna eða hvenær sem er, fyrir trú á Jesú. Jesús sagði líka, að lærisveinarnir ættu að kunngjöra öllum heiminum, orð sín og verk, og ekkert undan draga. Hann sagði:
“Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hafir sent mig.” Jóh.17,20-21.
Já, sömu verkin munu allt frá upphafi og til enda, fylgja þeim, sem trúa á Jesú. Þar eru engin skil, eða tímabil undan þegin. Þetta er líka í samhljóman við orð Páls: “Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krist.” Róm. 10,17.
Það eru líka til kristnir menn, sem segja að þessi verk eigi eftir að koma á síðustu dögum, áður en Jesús kemur aftur. Og þeir sömu halda því fram, að spádómur Jóels spámanns, sem Pétur vitnar um á hvítasunnumorgni, hafi í raun ekki átt við þessa úthellingu heilags anda. Því að þeir tímar, sem Pétur lifði á, hafi ekki verið þeir síðustu. Því að það séu um tvöþúsund ár síðan.
Ég tel að svona orð og getgátur, séu til þess eins, að standa í gegn Guði og tefja fyrir vilja hans. Eigum við þá ekki að trúa því, að Pétur þá nýfylltur heilögum anda, hafi verið að tala spádóms Orð Guðs. Sagði ekki Pétur: “Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel sagði.”
Ég trúi því, að þessi spádómur eigi við hvítasunnudag, fyrst Pétur kunngjörði það. Og að hinir efstu dagar séu tákn um náðartímann. Frá krossdauða Jesú og upprisu, til endurkomu hans. Þess vegna eigi heilagur andi að virka í kirkju Jesú Krists í dag, eins og að hann gerði í frumkirkjunni.
Það eru bara við mennirnir, sem höfum staðið í gegn Guði og anda hans, og eigum eftir að standa í gegn honum. Alveg eins og Stefán píslavottur sagði um þá sem áttu að vera Guðslýður:
“Þér harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þér standið ávalt gegn heilögum anda, þér eins og feður yðar.” Post.7,51.
Já, pabbar ykkar, afar og langafar, allir staðið gegn andanum. En málið er einfalt frá Guði séð: Heilagur andi hefur alltaf átt að virka í gegnum þær rúmlega nítján hundruð aldir, sem liðnar eru síðan honum var úthellt af Drottni Jesú. Og því hefur átt að vera vakning allar stundið síðan. Annars færi Guð í manngreinarálit með fagnaðarerindið, en hann gerir það ekki.
Í gegnum aldirnar hafa líka alltaf verið til menn, sem hafa vitað þetta, og upplifað heilagan anda og gjafir hans. Jafnvel í myrkri miðaldanna, en voru flestir teknir af lífi, af þeim, sem töldu sig vera fulltrúa Guðs og kirkju hans. Þess vegna er sorglegt að lesa kirkjusöguna og sjá þessa menn, sem höfðu á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneituðu krafti hennar. Standa í gegn þeim og drepa þá, sem voru hinir eiginlegu erindrekar Guðs.
Ef það kemur eitthvað síðregn, eins og menn tala um. Það er meiri virkni andans. Þá er það bara vegna þess, að menn hafa vitkast, beðið, játað og iðrast og Guð í kjölfarið úthellt sínum heilaga anda. Við vitum líka, að Guð fer ekki í manngreiningar álit, því að hann vill að allir komist til þekkingar á sannleikanum, að allir frelsist.Því gaf hann út kristniboðsskipunina: “Farið út um allan heim og gjörið alla menn að lærisveinum.” Og hversvegna skipaði hann svo? Því svarar Pétur postuli: “Þar eð hann vill ekki að neinn glatist, heldur að allir komist til iðrunar.” 2Pét.3,9.
Þetta sýnir líka, að Guð hefur ekki ætlað að hafa vakningar tímabil, fyrst hann vill að enginn glatist, og að allir komist til iðrunar. Þess vegna þarf og á, að vera dagleg vakning, svo að enginn glatist. Ekki vakning tímabila, heldur flæðandi vakning. Vakning sem verður vegna þess, að menn eiga neyð í hjarta fyrir sálum. En ef okkur vantar eitthvað til þess að vakning brjótist út, þá er það neyð fyrir syndaranum. Davíð konungur sagði við Guð:
“Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda, að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarinn megi hverfa aftur til þín.” Sálm 51,15-15 Eða með öðrum orðum: Gefðu mér neyð í hjartað.
Guð sat ekki á himnum eftir fyrstu úthellinguna, og horfði niður til jarðarinnar, og hugsaði með sjálfum sér: Nú ætla ég ekki að hafa aftur vakningu fyrr en um 300 og þá aftur um 1400 og þá pínulitla vakningu í mið Evrópu. Síðan ekki fyrr um 1906 og þá í Bandaríkjunum. Svo aftur um 1970 – 80 og þá fer hún líka um Evrópu og Skandínavíu. Svo hef ég ekkert ákveðið hvenær stóra vakningin verður, fyrst Pétur misskildi spámanns orð Jóels á hvítasunnudag. Ég þarf því að skoða málið betur og að hverjir eigi að vera aðnjótendur. En Guði sé lof, að hann er ekki maður sem lýgur, og ekki sá er mismunar mönnum, heldur vill að allir frelsist.