Sálmur 49

 
Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,


bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!


 Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

 
Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm


Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,


 þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.


 Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.


Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

 
 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.


 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.


 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.


 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

 
 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. Sela

 
 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.


En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. Sela 


Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,


 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.


 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: Menn lofa þig, af því að þér farnast vel.

 
 Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.


 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.