Vitnisburður minn

Ég var að vinna við markaðssetningu á næringarefni og í tengslum við þá vinnu mína átti ég mikil samskipti við mann, sem hafði skrifað eftirtektarverða bók um næringargildi ákveðins næringarefnis.

Hann gaf í bók sinni fyllilega í skyn að næringarefni þetta hefði breytt heilsu sinni, já lífi sínu, ekki aðeins líkamlegri heilsu heldur líka sálarástandi sínu, breytt depurð ellinnar í bjartsýni á lífið.

Dag einn spurði ég rithöfund þennan um sannleikann varðandi efni bókarinnar hvað þetta næringarefni varðaði, hvort hann vildi þakka því þá heilsu sem hann átti þrátt fyrir háan aldur (maðurinn var yfir áttatíu ára gamall og hljóp iðulega heilt Maraþonhlaup,þ.e. 42 km.). Rithöfundurinn horfði á mig hreinskilnis- og einarðlega og sagði: "Þú sem hefir lesið svo mikið Biblíuna ættir ekki að efast um þetta næringarefni því í Biblíunni er það margnefnt sem næring, fyrst í Sköpunarsögunni og síðan fyrir Guðs útvalinn lýð á eyðimerkurgöngunni út úr Egyptalandi. Svo nefndi hann ritningarstaði, en ég kannaðist ekki við þetta og hafði alls ekki skilið ritningarversin eins og hann útskýrði þau. Hann hélt áfram: "Það er ekki nóg að lesa Biblíuna, menn þurfa víst að þekkja rithöfund þeirrar bókar til að skilja Bókina og menn þurfa að heyra rithöfundinn hið innra með sér. Það sagði mér amma mín og hún þekkti rithöfund þeirrar bókar og virtist skilja hann."

Við þessi orð hans varð ég hálf hvumsa, og ég sagði: "Ég vissi ekki að þú værir kristinn, og mér hefir skilist annað á þér í samræðum. Hann svaraði í hreinskilni: "Ég tel mig ekki vera kristinn, en amma mín var kristin og hún talaði um Höfund Heilagar ritningar sem Fræðarann eina og sanna, en menn leituðu hans ekki nóg, og ég veit að amma mín laug aldrei svo þetta er víst satt."

Þessar samræður urðu mér ærið umhugsunarefni, þar sem ég hafði komist til trúar á Guð áratugum áður en þetta samtal átti sér stað, og þá las ég Biblíuna reglulega og af einlægum áhuga. Hvað hafði verið að? Vantaði mig virkilega að heyra rithöfundinn til að fræðast í orði hans? Nú hafði maður, sem ekki taldi sig kristinn verið að segja mér hvers vegna mér hafði ekki vegnað betur á trúargöngu minni Var ég svona fjarri sannleikanum? Það skyldi þó ekki vera.

Ég hafði verið í raunverulegu fráfalli frá kristinni trú í yfir tuttugu ár án þess að viðurkenna það fyrir sjálfum mér, hvað þá fyrir öðrum.

Nú var það að ég minntist æskuára minna. Ég hafði þá marglesið bækur eftir þann rithöfund okkar Íslendinga, sem síðar hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir ritverk sín en á þeim árum gat ég alls ekki skilið bækur hans.

Síðar þegar ég var um þrítugt, las Nóbelskáldið okkar "Brekkukotsannál" sinn upp í útvarpinu, sem útvarpssögu, ég fylgdist með upplestri rithöfundarins frá byrjun, nú naut ég sögunnar frá upphafi til enda og hreifst af snilli skáldsins.

Mér datt þá í hug að reyna að lesa á ný þær bækur skáldsins sem ég gat ekki skilið fyrr á árum. Nú brá svo við mér fannst eins og áherslur og upplestraráhrif skáldsins upplykju fyrir mér nýjum skilningi á öllum hans bókum.

En hvað um Höfund Biblíunnar, mundi hann lesa upp fyrir mig svo ég gæti skilið orð hans?

Ég fékk nú ákafa löngun til að leita Drottins og ég fann iðrun fylla hjarta mitt, já ég leitaði í iðrun og auðmýkt í bæn til Drottins og bað um fyrirgefningu á öllum mínum gjörðum sem höfðu svo lengi haldið mér í burtu frá Frelsara mínum og frá Hans vilja.

Ég bað samkvæmt fyrirheiti orðsins í Jóhannesarguðspjalli: Jóh.14:23-27

-23- Jesús svaraði: Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.

-24- Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.

-25- Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður.

-26- En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.

-27- Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

-28- Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri.

-29- Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist.


 

Ég fann mér stað úti í náttúrunni þar sem ég gat verið ótruflaður af síma og öllum erli viðskiptaheimsins, sem svo lengi hafði átt hug minn allan.

Í þrá eftir nærveru Drottins, já eftir nærveru Fræðarans mikla, Anda sannleikans, fann ég að bæn mín var farinn að breytast (auðmýkt og lítillæti var farið að verða mér eðlilegra (það var kominn tími til)). Svo var það dag einn að ég gerði mér grein fyrir lausn og frelsi, tilfinning þessi var mér framandi í byrjun, en ég gat ekki þagað yfir því, sem það færði mér, frið sem var æðri skilningi mínum, og ég fór að reyna að segja viðskiptafélaga mínum frá þessu með lausnina og frelsið, hann leit á mig með meðaumkvun,og sagði: "Þú hefir frelsast maður og hvað ætlarðu nú að gera, fara að ganga um eins viðundur eða hvað?"

Stuttu seinna lauk samskiptum mínum og þessa manns, það var hans ákvörðun.

Lengi má manninn reyna, þessi orð viðskiptafélagans voru mér fyrst umhugsunarefni. Frelsaður? Já það var nú að ég fór að átta mig á því að það var raunverulegt og satt, sem maðurinn hafði sagt, þetta með "viðundrið" en ég skynjaði það sem náð, náð sem ég hafði hlotið í frelsi fyrir trú á Drottinn Jesús Krist, og nú fór svo margt að breytast í hugarfari mínu, og orð Biblíunnar fóru að ljúkast upp fyrir mér í nýju ljósi, þau fengu öll nýja merkinu fyrir mér og ég þráði að segja öðrum frá öllu því sem mér hafði hlotnast.

Sú þrá hefir ekki vikið frá mér í öll þau ár sem liðin eru frá þessum merkistíma í lífi mínu, og þess vegna eru þessar línur skrifaðar að allur heimur megi heyra, því Jesús er í dag svo sem hann var þá.

Og hann dó okkar vegna og hver sem hans leitar finnur lausn og frelsi í Honum, frið sem er æðri öllum skilningi, og hvar og hvenær sem þú opinberar öðrum trú þína á Frelsara þínum, og viðurkennir hann fyrir mönnum, viðurkennir Hann þig fyrir Föðurnum og englum himinsins.

Leitaðu og þú munt finna, það er fyrirheiti Lausnarans og orð hans oru sönn.

Það er ósk mín til þín, sem þennan vitnisburð minn finnur hér á vefnum,
að hann megi umvefja þig blessun og friði, sem er æðri öllum skilningi,
í Jesú blessaða nafni.

Magnús Björnsson
Vefstjóri

bulletblue.gif (3232 bytes) Viltu hlusta á Vitnisburð minn á

  Viltu hlusta á Vitnisburð minn á RealPlayer ? ??

Ps. Ef þú átt vitnisburð úr þínu lífi er pláss fyrir hann hér á vefsíðum Gleðitíðindanna!!

Sjáðu fyrirheitin, sem okkur öllum eru gefin, enginn er þar undan skilinn. Jesús dó fyrir alla menn, fyrir mig, og fyrir þig, enginn er þar undan skilinn, því allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð. Þar eru allir jafnir.

Notfærðu þér hlekkina (linkana) milli síðnanna og íhugaðu orð Drottins. Taktu þér Biblíuna í hönd, og ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá er hann trúr og sannur og hann er bænheyrandi Drottinn, sem lætur engan frá sér fara, sem leitar hans í anda og sannleika, og ómælt gefur hann andann öllum þeim sem til hans leita, en sérhver biðji í trú.

Leitaðu í Orði Guðs og þú munt finna!!

Eða ef þú vilt spjalla um orðið þá hafðu samband, SKRIFANDI_BOK.GIF (18440 bytes)

b48.gif (3825 bytes)

Jesús svaraði: Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.